Færsluflokkur: Bloggar

Þegar smalar seggur sá,

 

 

                            

                                                    

                                                                 Þegar smalar seggur sá,

                                                                 svo mun fljóðin gruna,

                                                                 að skjómarjóður skjótist á,

         Skógarkerlinguna.

                                                                                                                                                 Þessi vísa er eftir Sverrir Magnússon f.1823 hann var bóndi ásamt börnum sínum í Skálmar-  bæjarhraunum í Álftaveri árin 1899 -1904. Skógarkerlingin er vel gróin hár hóll í Skálmar-  bæjarhraunum sem víðsýnt er frá. Þar er gott fyrir smalamenn að fara upp til að sjá vel yfir.  

     Ég tel vísuna lýsa því vel þegar smalamaður sem er að skima eftir kindum fer göngumóður

     (og rjóður í kinnum) upp á hólinn til að sjá vel yfir landið.

 

                                                                              . Gissur Jóhannesson


Heimagangurinn.

 

 

                                                                               Heimagangurinn og hundarnir.

 

Þegar Ásgeir og Fjóla bjuggu í vesturbænum á Jórvík í Álftaveri þá voru þau eitt sumarið  með heimagang sem tapaðist að heiman um eða fyrir miðjan September.  Heimagangurinn   fannst svo ekki fram eftir öllu hausti þó búið væri að smala á öllum bæjum í Álftaveri.                                                Á þessum árum voru hestar mikið notaðir við smalanir, það tók því alltaf nokkurn tíma að   

 ferðast um landið sem smala átti,oft var þá til að spara tíma og ferðalög að smala í heim- leiðinni úr afrétti  það land sem næst liggur afrétti svo kallaða Upphaga sem er  heimaland Holts og Herjólfsstaða. Um 20 október þetta ár vorum við Álftveringar að koma úr afrétti.                                               Við sem í þeirri ferð fórum niður úr högum voru Ásgeir, Hjörtur á Herjólfsstöðum og ég.

Þegar við komum að Rjúpnafelli sem er móbergshnúkur sunnan Leirár sáum við kind hátt uppi,austan í fellinu. Við sáum það strax að kindin var svo hátt uppi að einn okkar þyrfti að fara næstum alveg upp á fellið til að vera ofan við kindina.       Með okkur í ferð voru tveir hundar sem Ásgeir átti,hægt var að senda þá langa leið eftir kindum ef hægt var að láta þá sjá kindurnar.  Til að losna nú við að þurfa að fara upp og engir hamrar eða aðrar hættur fyrir kindur eru þarna í fellinu þá ákváðum við að senda hundana upp eftir kindinni.

Ásgeir fór aðeins frá okkur og gat látið hundana sjá kindina og sendi þá upp,meira þurfti ekki að hvetja þá þeir fóru beint til kindarinnar. Oftast þegar kindur sjá hunda koma svona eins og þarna var þá leggja þær strax á flótta frá hundunum,en þessi kind gerði það sko ekki 

hún stóð alveg kyrr og horfði beint á hundana þó þeir nálguðust óðfluga. Svo skeður það að   báðir hundarnir stoppa snarlega svona c. a. einn meter frá kindinni,þar leggjast þeir fram á lappirnar á sér og hreifa sig ekkert,horfa bara á kindina. 

Það var alveg sama hverning við reyndum að hvetja hundana til þess að ráðast að kindinni og koma með hana niður,þeir hreyfðu sig ekki, því þarna voru þeir búnir að finna félaga sinn heimaganginn sem þeir voru búnir að vera með allt sumarið heiman hlaði og höfðu ekki séð svo lengi,þeir færu nú ekki að ráðast á hann þó einhverjir argandi og gargandi karlar niður á sandi væru að skipa svo fyrir.       Ef ég man það rétt þá fór Ásgeir svo upp til

 að ná í heimaganginn en við Hjörtur fórum sitt hvoru megin við fellið.

 

                                                      Gissur Jóhannesson Herjólfsstöðum.

                                        .  

 

 


Er hægt að h/fa lýðræðið.

Hvað er lýðræði? Ég hef skilið merkingu orðsins lýðræði svo,að það eigi að tryggja öllum þegnum þjóðfélagsins sem jafnastan rétt,hvar í stétt eða stöðu sem þeir standa. Það eigi að tryggja hverjum einstaklingi það frelsi til orðs og athafna sem hvert þjóðríki má og getur veitt þegnum sínum.       Til að tryggja þetta frelsi og áhrif þegnanna á málefni þjóðfélagsins,kjósa þegnarnir sér ákveðin fjölda alþingismanna oft á fjögura ára fresti til að fara með í umboði sínu í svokölluðu fulltrúa lýðræði stjórn landsins.                Alþingismenn sem í umboði fólksins og samkvæmt stjórnarskrá eiga að fara með stjórn sameiginlegra mála þjóðarinnar,setja henni ný lög og breita eldri lögum sem tryggja eiga réttmætan eignarétt manna og réttmætt frelsi allra þegna þjóðarinnar.   Náist ekki samkomulag um málefnin,ræður meiri hluti atkvæða í kosningum og atkvæðagreiðslum milli einstaklinga og eins á milli kjörina fulltrúa sé öðruvísi ekki á kveðið.

Í umræðum á Alþingi um vatnalög kom það skýrt fram hjá einum alþingismanni Sjálfstæðis- flokksins sem þar talaði,að lýðræðislegar kosningar byggðust á því sem ég hef talið hér að framan.  Það er að meiri hluti atkvæða einstaklinga ráði málum.                                   Kanski var það þá eða kanski var það mikið fyrr sem ég fór að velta því fyrir mér hvort frjálshyggjan rúmaðist innan lýðræðisins.      Rúmast verðbréfa og hlutafjáreignir manna í fyrirtækjum innan lýðræðisins,þar sem atkvæðavægi einstaklingana fer eftir því hvað eigna- hlutur hvers og eins er stór í félaginu eða fyrirtækinu?                                                     Er það lýðræði ef h/faðir fjársterkir einstaklingar geta ráðið vaxtastigi fjármagns,gengis- skráningu krónunar,verðlagi á vöru og þjónustu og fleira og fleira?

Getur það verið lýðræði ef h/fuð fyrirtæki í einkageiranum geta einhliða ákveðið kaup handa stjórnendum sínum. Kaup sem stjórnmálamenn ákveða síðar með lögum að miða skuli kaup alþingismanna og annara æðstu stjórnenda ríkisins við.  Er það lýðræði?                             Því spyr ég aftur og enn:   Er hægt að h/fa lýðræðið?     Rúmast frjálshyggjan innan þess?

                                                                  Gissur Jóhannesson.                          Þetta er búið að vera lengi í tölvuni minn. Ég kann lítið á tölvu. Er að prófa  Gissur.

 


Hvað ungur nemur sér gamall temur.

 

Nú erum við nafnarnir að læra á bloggið. Gissur eldri er mun reyndari í bloggheimum en Gissur yngri reynir að tjónka við tölvuna.


Hömluleysi.

Það eru einhverjir mánuðir síðan ég skrifaði eftirfarandi í tölvuna og þar hefur það verið síðan.

,,Svo læra börnin málið að það sé fyrir þeim haft"  Þetta gamla máltæki kemur oft upp í huga minn þegar sagt er frá því í fjölmiðlum að lögreglan hafi þurft að hafa afskipti af ýmsum skammarstrykum hjá misjafnlega fullorðnu fólki, oftast vegna áfengis eða annara fíkniefna.   Oft hafa fjölmiðlar sagt frá þessu eftir svokallaðar útihátíðir úti á landi,nú heyrist mér að svo sé komið að um flestar helgar í höfuðborg landsis sé þetta ekkert betra.   Því skilst mér að lögregla og borgaryfirvöld í Reykjavík séu að taka á þessu máli ef með því mætti draga eitt- hvað úr þessum ófögnuði,þar sem menn verða sjálfum sér og öðrum til skaða og skammar. Þegar svo er komið með skemtanahald þjóðarinnar að lögreglan þurfi oftar en ekki að hafa afskipti af fólki svo það skaði ekki sjálft sig eða aðra þá er það með ólíkindum að til séu menn jafnvel alþingismenn sem vilja selja áfengi í matvöruverslunum  ALLT Í NAFNI FRELSINS.  

Ég held að sá málflutningur frjálshyggjufársins sem gengið hefur yfir fólk á undanförnum árum sé nánast að æra þjóðina. Menn tala um frelsi á þessu og frelsi á hinu án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hvað í því felst. Ég held að allir þurfi að gera sér grein fyrir því að frelsi án stjórnunar er ekki til, því miður.  Með stjórnlausu frelsi eru alltaf einhverjir til sem  nota sér það frelsi á kostnað annara. Auk þess er altaf til einstaklingar sem einhverja hluta vegna ráða ekki við sig þegar áfengi er annarsvegar. Svo langt hefur þessi frjálshyggjusöngur fáránsleikans gengið að ef setja á  reglur sem allir eiga að geta farið eftir,þá er hrópað forræðishyggja, forræðishyggja og jafnframt mynt á Rússland, kommúnista og einræði. Þær reglur sem kjörnir fulltrúar almennings setja og sumir kalla forræðishyggju finnst mér miklu betri en sú forræðishyggja sem skapast af svokallaðri frjálshyggju einstaklinganna sem geta sett sínar eigin reglur án þess að spyrja nokkurn.


Peningasláttur. Sláttulok?

  Á síðustu árum hafa Íslendingar verið mjög uppteknir af peningaslætti í útlöndum,sérstaklega hefur verið mikið um þennan peningaslátt eftir að bankarnir voru einkavæddir.Svo mikið var talað fyrir þessum peningaslætti að margir voru farnir að trúa þvi að þjóðon gæti sem best lifað á honum. Sjávarútvegur væri ekki lengur helsti atvinnuvegur þjóðarinnar.               Nú virðist hinsvegar vera komið svo að ballið sé búið. Fyrst heyrðist það að bankarnir kvörtuðu mjög undan háum kostnaði við endurfjármögnun þeirra erlendis.Og nú er jafnvel svo komið að bankarnir fá ekki lengur lán þar.  Í mínu ungdæmi, þegar búið var að hirða upp síðasta heyjið á sumrinu og ekki var meira land til að slá. Þá voru sláttulok.  

 


Þorsteinn Baldvinsson. Hafðu þökk fyrir.

Hafðu þökk fyrir Þorsteinn fyrir að koma niður á jörðina og hætta að vaða í skýjunum eins og svo allt of margir hafa gert í langan tíma.

SENDUM Á MILLI SITT Á HVAÐ.

1)Sendum á milli sitt á hvað         2)Vanda skulum verkin öll

     sem á blað við krotum.              vel svo fara megi.

    ef það mætti upphaf að              Láta hugann flytja fjöll

    ýmsum þankabrotum.                 og fljúga um lífsins vegi.

  3)Látum ekki hrollkalt hrím            4)Iðkum andan eflum mál

     hrekja frá oss gaman.                  oft það gleður gaman.

   En höfuðstafi stuðla og rím             Treistum það að tungan þjál

     stemma látum saman.                  tengi orðin saman.

   5)Þetta er víst orðið bjagað bull

     svo best er mál að linna. 

     En gaman væri að gera gull

    og geimsteina að finna.              Gissur Jóhannesson


Fiskreki.

Þegar ég var krakki fyrir um 70 árum rak oft fisk á Herjólfsstaðafjöru.Þetta var sá alrabesti fiskur sem ég hef fengið. þegar maður fær svona nýmeti eftir að hafa étið saltaðan eða súran mat í langan tíma þá fanst manni þetta alveg sælgæti þó stundum hafi ekki altaf hafst að hreinsa öll sandkorn úr honum. Aðallega rak fiskinn á land seinnipart vetrar,oftast þurfti að vera komið á fjöru áður en byrti svo fuglinn væri ekki búin að éta fiskinn.Oft fundust fiskbein sem fuglinn var búin að éta af.  Stundum gat alveg orðið landhlaup af fiski. Frá einu svoleiðis landhlaupi sagði frá fyrir mörgum árum í Lesbók Morgunblaðsins þar sem Árni Óla talaði við Jón Sverrisson fyrverandi fiskimatsmann í Vestmannaeyjum sem áður var bóndi í Holti í Álftaveri sem hyrti þá þar um reka af Bólhraunafjöru. Einusinni þegar Jón fór á fjöru þá hafði á síðasta flóði myndast lón innan við fjörukampinn sem fullt var af fiski í sem honum tókst að veiða upp úr lóninu með berum höndunum  Fiskurinn var það mikill að hann batt upp á hestinnþað sem hann gat borið og labbaði svo sjálfur heim teimdi hestinn.  Daginn eftir fékk hann nágranna sinn með sér til að í það sem eftir var og fóru þeir með tvo hesta                  

 Frá því um og fyrir 1950 og fram yfir1960 rak hér oft mikið af loðnu,bændur hyrtu mikið af henni  og notuðu sem fóðurbæti.Loðnan var efst í flóðfarinu og því vandalaust að raka henni saman.

 Nú hefur ekki um margra ára skeið hvorki rekið fisk eða loðnu.Hvað veldur veit ég ekki.

                                                    Gissur Jóhannesson.


Um kúakyn og fleirra.

Sæll Sæmundur: Fyrst segi ég gleðilegt ár til þín og þinna í Árbæ.
Þú spyrð hver afstaða mín sé til innfluttnings á erfðaefni til kynbóta á íslenska kúastofninum. Ég er nú orðin svo gamall að ég veit varla hvort ég á að tjá mig um það. Og þó,ég hef stundum viljað vera að skifta mér af hlutum
sem mér kemur ekkert við,því þá ekki að hafa skoðun á þessu eins og öðru.
Ég er heldur mótfallinn innflutningi á þessu erfðaefni. Ég tel að betur þurfi að sannreina þann ávinning sem talið er að verði af þeirri breytingu að skifta um kúakyn. Ég vil t.d. fá að vita hvort og hvað mikill munur er á milli kynjana af þurefni í mjólkinni sem þau skila,miðað við fóðureiningar sem hvort kyn þarf að umsetja. Svo kostar mikið að þurfa að breyta fjósunum líka. Annars tel ég þetta smámál á móti því ef leifa á óhefta sölu bújarða án þess að gengið sé tryggilega frá því að öllum rétti þar um fylga skyldur líka,þar á ég við allskonar mannleg samskyfti.
Ekki meira núna,ég er búinn að finna leiðina í tölvunni. Kveðja. AFI Gissur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gissur Þórður Jóhannesson

Höfundur

Gissur Þórður Jóhannesson
Gissur Þórður Jóhannesson
Ég er bara gamall karl sem hefur gaman af að fylgjast með og skifta mér af ýmsum málum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Lára, Gissur og Lilla, 14. febr. 2006 002
  • Hólmsárfoss
  • Hólmsárfoss 3

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband