Huldukonan.

                                                   Huldukonan Á árunum 1936-1941 voru öll útihús á Herjólfsstöðum(austurbæ)tekin niður til viðgerðar, ýmist á sama stað eða að sum þeirra voru flutt til og byggð upp annarstaðar á túninnu.Veggir húsana voru hlaðnir að innan verðu úr hraungrjóti en moldarkekkjum að utan, þar sem grasið á þeim var látið snúa út svo þeir væru fljótara að gróa og verða grænir. Svo veggirnir væru vel gerðir og þeir stæðu sem lengst þurfti að stuttla (troða)vel með priki mold á milli steinana.     Ég var stundum látinn gera það,þó bræðrum mínum sem eldri voru þætti ég stundum heldur latur og ekki gera það nógu vel. Þeir sögðu mér að svo fast þyrfti að stuttla moldina að ef ég pissaði í hana að kvöldi þá ætti það ekki að síga niður og standa þar pollur að morgni, auðvitað trúði ég þessu en alltaf var pollurinn sigin niður á morgnanna.     Á sumum húsunum var þakjárn, en á flestum þeirra var torfþak ofan á röftum sem þannig var gengið frá.  Reistar voru stoðir(stafir)meðfram innveggum hússins sem stóðu á stoðarsteinum niður á gólfi.  Oftast var festur planki ofan á stoðirnar til þess að halda þeim saman,sá planki var kallaður Brúnás,(oft kallað hér Móleður,veit ekki af hverju það var dregið) Síðan voru sperrurnar festar niður á Brúnásin ofan á hverri stoð.   Ofan á sperrurnar voru sett langbönd  þau héldu sperrunum saman,á langböndin var svo rafturinn lagður til að halda uppi torfinu.Mest af timbrinu sem notað var hér í húsin var rekatimbur,sem rak á Herjólfsstaðafjöru.Til að ganga þannig frá að þakið lækji sem minnst,þá þurfti að vanda sem best frágang þess.Byrjað var á að leggja raftinn sem sneri upp og niður eftir þakinu þvert ofan á langböndin. Þar næst var melstöngin lögð ofan á raftana í tveimur lögum. Neðra lagið var lagt á ská ofan á raftinn svo melstöngin færi ekki niður á milli raftana,efra lagið sneri svo upp og niður eins og rafturinn svo vatnið sem fór niður úr torfinu myndi renna niður eftir stönginni.    Þar ofan á kom svo torf í tveimur lögum, í innra laginu sneri grasið inn en í því ytra sneri grasið út.  Best var að tyrfa með mýrartorfi það var seigara í því og að því leiti betra en vallendistorfið.Eins og áður segir var verið að gera við útihúsin á Herjólfsstöðum um og rétt fyrir árið1940.Reynt var að nýta sem mest af því efni sem nýtanlegt var fyrir í húsunum,þó bæta þyrfti þar ýmsu við bæði timbri,torfi og grjóti.    Grjótið sem vantaði og notað var, var keyrt heim á hestvögnum, grjótið tókum við norðan við Arnardrangsfitina. Bræður mínir annað hvort Einar eða Loftur(ég man ekki orðið hvor) sóttu grjótið og ég var oftast með til að teyma hestinn og láta steina á sem ég réði við.Í einni ferðinni fórum við fram hjá hraunhellu sem var um einn og hálfur metri á kant.   Hellan sem stóð næstum lóðrétt upp úr sandinum, var passlega þykk í grjótlagið í veggnum.          Ég sagði þá við bróðir minn að í næstu ferð færum við með sleggju með okkur og brjótum helluna niður,hún passar á vagninn í eina ferð.      Þó ég hafi sagt þetta þá var hellan aldrei tekin,ekkert man ég nú eftir því hversvegna,kannske þurfti bara ekki meira grjót. Kannski? Því var það að hellan var þarna vorið eftir þegar ég sá Huldukonuna við hana.Ekki þori ég að fullyrða það hvort pabbi minn Jóhannes Guðmundsson hafi strax, þegar hann fór frá Söndum að Herjólfsstöðum vorið 1919 tekið að sér að vera aukapóstur frá Strönd að Herjólfsstöðum,en svo mikið er víst að ég f. 1928 man ekki eftir öðru en að hann væri póstur og það allt fram til ársins 1952,þá var hann 72.ára.  Á póstleið þessari er vatnsfallið Kúðafljótyfir að fara.  Þessar póstferðir fór hann á ákveðnum vikudegi hálfsmánaðarlega væri það fært. Stundum var ekki fært vegna veðurs en oftar var það vegna vatnavaxta í fljótinu eða þá vegna   þess sem vest var þegar fljótið var að frjósa ,,fara saman á veturnar”.(eins og það var kallað)  Stundum að vetrinum til ef saman fara mikil snjókoma mikill vindur og hart frost þá skefur snjóinn í fljótið svo kæfir í það.(eins og það var kallað) Þegar frostið er mikið þá frýs krapinn saman, en vegna hita í vatninu helst lengi auður áll í vatninu,sá áll getur orðið mjög djúpur.Þegar svona var,var fljótið oftast ófært þangað til annað hvort kom hald á það eða þá hlánaði. Þó fljótið hafi rauninni verið ófært þegar svona var,þá voru menn stundum að fara yfir það ef þörf þótti til þess. Til eru skráðar frásagnir manna um ferðir yfir fljótið við þessar aðstæður. T.d. Strandmannaferð Pabba. Ljósmóðurferð Hildar. Og þegar Eggert bróðir pabba dó.  Pabbi var fæddur á Söndum í Meðalandi árið 1880, þar átti hann heima til ársins 1919 þegar hann flutti að Herjólfsstöðum.   Jörðin Sandar er nokkrir hólmar í Kúðafljót.   Pabbi þekkti Kúðafljót mjög vel,því auk þess að eiga heima á Söndum í tæp 40 ár þá var hann póstur yfir fljótið fram yfir sjötugt eins og áður segir.  Eins fylgdi hann mörgum ferðamönnum þar yfir þar á meðal strandmönnum sem hann sá um að flytja til Reykjavíkur,stundum þurfti hann að binda strandmennina á hestana yfir fljótið því fæstir þeirra höfðu áður á hestbak komið. Svo vel þekkti pabbi fljótið að hann sagði það ekki nokkurn vanda að sjá hvar vatnið væri grynnst,hinsvegar gæti verið dálítið vont að sjá fyrir víst hvort hesturinn myndi synda eða  ekki þegar vatnið væri orðið það djúpt. Þegar hann var ungur maður heima á Söndum þá var hann oft kærulaus(sagði hann mér)þegar hann var að fara yfir vatnið í fljótinu,hann fór bara beint af augum yfir vatnið þar sem hann kom að því án þess að gæta að hvað djúpt það væri.Einu sinni þegar hann hafði þennan hátt á og hesturinn var komin á bullandi sund þá hætti hesturinn að synda lagðist á hliðina og lét sig fljóta þannig með straumnum í vatninu.Þegar þetta var þá voru þau farin að búa pabbi og mamma og eitthvað af strákunum fæddir.Þetta sagði hann mér einu sinni og sagði að þegar hesturinn lá orðið svona á hliðinni þá hefði hann ákveðið, að þessum glannaskap við vatnið yrði hann að hætta. Eftir það gætti hann altaf að hvort og hvar var fært yfir vatnið. Þegar pabbi var komin yfir sjötugt var til hér hestur sem Loftur átti mjög viljugur hestur   Pabbi fór oft á honum í póstferðir þó fullorðin væri.Í einni póstferðinni yfir fljótið þegar hann var á þessum hesti, þá var með honum maður sem þurfti að komast austur í Meðaland,sá var á frekar lötum og lítið brúkuðum hesti.Kúðafljót hafði skömmu áður verið undir ís en var nú orðið nokkuð mikið autt þó var nokkur ís við suma vatnsálanna,þar gat verið dálítið djúpt niður af skörinni ofan í suma álanna.   Pabbi var búinn að venja hestana á það þegar hann þurfti að ríða svona fram af ísskör,þá sló hann í þá og gat látið þá stökkva með alla fætur í einu fram af skörinni og þannig hafði hann það í þessari ferð,þegar hann kom upp úr álnum leit hann aftur til að sjá samferðamanninn þá sá hann að hestur hans var að reka báða framfætur út af skörinni og svo steyptust bæði maður    og hestur á höfuðið niður í vatnið.  Þó pabbi færi altaf gætilega yfir fljótið á seinni árum, þá hafði hann hálfvegis gaman af þessum hrakförum samferðamannsins,vatnið var svo lítið og því engin hætta þó svona færi.  Fyrst þegar ég man eftir sótti Loftur Ólafsson á Hörgslandi allan póst sem fara átti í V- Skaftafellssýslu(að minstakosti austan Mýrdalssands)á hestum hálfsmánaðarlega allt árið vestur að Stórólfshvoli(þ. e. þar sem Hvolsvöllur er núna)Síðar þegar bílar fóru að koma þá styttust þessar ferðir til Víkur og þó bílar flyttu póstinn að sumrinu til þá voru þessar hesta póstferðir farnar til Víkur og austur á Síðu allt fram yfir árið 1950 að vetrinum til. Þegar áætlunarferðirnar með rútubílum milli Reykjavíkur og Kirkjubæjarklausturs hófust um 1940 var pósturinn fluttur með þeim að sumrinu til.  Ekki man ég nú eftir því hverning náð  var í póstinn sem kom með rútunnin úr Reykjavík,en pabbi sá um að koma póstpokanum frá bréfhirðingunni sem var hjá Hannesi í vesturbænum á Herjólfsstöðum  í veg fyrir rútuna. Oft fór ég með póstinn í veginn fyrir rútuna upp að Skálm,stundum á hesti en oftar gangandi.Ég setti póstinn í  póstkofort sem fest var rækilega við grjótvörðu og læsti því, rútubílstjórinn  var svo með annan lykill til að opna það.     Það var í svona póstferð sem ég sá Huldukonuna.Ég var gangandi og fór vestan við Kálkháls til að þurfa ekki að vaða lækinn. Þegar ég kom að  þeim stað þar sem hellan var, rétt niður við Arnardrangsfit,þá var mér litið til hellunnar sem var í 60-80 metra fjarlægð þá sá ég hvítklædda konu norðan við helluna.        Á konunni var hreifing,því hún gekk bak við helluna frá mér séð,fyrst sá ég hana alla en svo bara höfuðið upp fyrir helluna þá ég leit af henni,en þegar ég leit til baka aftur þá var ekkert bara hellan. Mér brá heldur þegar ég sá konuna, það jafnaðist nú fljótt svo ég fór upp á hól þar rétt hjá til að vita hvort mér hafi ef til vill missést hvort þetta gæti hafi verið t. d. kind eða bara eitthvað annað, en ég sá ekkert.     Enda var þetta ekkert annað en Huldukona,því en sé ég myndin af henni fast greipta í huga mínum. Ég held að hún hafi verið að segja mér, að hún ætti þarna heima og ég ætti að láta  helluna vera. Endalok hellunnar urðu þau að Vegagerðin tók hana og flutti á varnargarð út á Mýrdalssandi í vatnaganginum sem var á árunum milli ´55og´60.  Jæja frænka. Þetta er nú orðið mikið lengra en ég ætlaði. Mér fannst það svo lítið sem ég gæti sagt um Huldukonuna því yrði ég að hafa bréfið svolítið lengra og en ætla ég bæta aðeins við.  Þú hendir bara þessu bulli öllu saman ef þú nennir ekki að lesa það. Þegar ég var ungur maður um og fyrir 1950 tókst mér að framleiða nokkuð taktfastan hávaða  úr harmoniku.  Þá var unga fólkið margt hér heima  á sumrin. Þá var verið í heyskap sex daga vikunnar frá morgni til kvölds,á sunnudögum var ekkert átt við hey nema ef  rigningatíð var     mikil.     Því var það oft á sunnudögum að unga fólkið hittist,þá datt einhverjum strákum eða  stelpum eða kannski voru það bæði strákar og stelpur sem vildu halda ball um kvöldið.Klukkan var oft orðin sex eða sjö að kvöldi þegar komið var til mín að biðja mig um að spila.     Auðvitað sagði ég alltaf já. Það var sími á öllum bæjum svo ekki tók langan tíma að boða ballið,síðan var allt liðið mætt eftir 2-3 klukkutíma 20-25 krakkar á aldrinum 14-25 ára,oftaststóð ballið til kl. 2-3.       Mest var dansað af gömlu dönsunum eins og Lottu(þ. e. Óli Skans)  Fingrapolka,Marsúka,Vínarkrús,Polka,Vals,Ræl, Sjösporaræl og Bomsadayse sem var nýrra. Svo var marserað, þar sem eitt parið stjórnaði marsinum eftir ákveðnum reglum.                 Þegar marsinn var búinn réðu stjórnendurnir því hvað mörg pör dönsuðu hvern dans í einu.     Það fór eftir því hvað stjórnendur ætluðu að láta fólkið gera í hvert skipti hvað mörg pör dönsuðu fyrst í hverju atriði. Ef það var spegillinn eða vasaklúturinn þá dansaði bara eitt par,í báðum tilfellum.           Spegillinn fór það þannig fram að strákurinn leiddi aðra stráka fram,þeir áttu einn í einu að líta í spegil yfir öxlina á stelpunni,ef hún vildi ekki dansa við strákinn þá setti hún kross á spegilinn þangað til sá strákur kom sem hún vildi dansa við þá sneri hún sér við og hneigði sig fyrir stráknum. Með klútnum var eins staðið að nema nú var stelpan með klút sem hún dró snöggt um gólfið fyrir framan sig og áttu strákarnir að leggast á hnéð ofan á klútinn. Ef stelpan gat ekki kippt klútnum nógu fljótt undan þá átti hún að dansa við þann strák sem tókst að leggjast á klútinn. Ætlast var til að allir strákar sem leiddir voru fram byðu svo öðrum stelpum upp og dönsuðu.     Stundum var skipting inn á við,það var þannig að fólkið sem var að dansa skiptist á dansfélögum innbyrðis.           Oftar var þó skipt út á við.   Þá var þannig farið að, stjórnendur létu þrjú pör dansa svo var skipt út á við,þá voru pörin orðin sex sem dönsuðu. Að þeim dans loknum létu stjórnendur oftast strákana en stundum stelpurnar fara út í forstofu þar sem hver einstakur var skýrður einhverju nafni t.d. nafni heimsálfana eða bara nöfnum karlanna eða kerlingana í Álftaveri t.d. einn strákur var skýrður  Páll í  Holti því nafni var svo komið inn fyrir hurðina þar sem stelpa tók við því og skýrði stelpu með því sama nafni,annar var svo skýrður Guðmann á Hryggum á sama hátt,þegar allir voru skýrðir þá dönsuðu saman strákurinn og stelpan sem hétu sömu nöfnum. Og svo var það gikkurinn,þá voru fjögur pör látin dansa fyrst,þegar þeim dansi lauk þá fóru stelpurnar ein í hvert horn á skólanum. Strákarnir voru fimm því einum var bætt við,þeir mynduðu hring með því að allir héldust í hendur og fóru þannig hringi um gólfið, fyrst sneru þeir andlitum saman síðan sneru þeir þannig að andlitin sneru út að veggunum.  Spilað var eitthvert lag sem þeir áttu að ganga eða stökkva í takt við,altaf var hert á að spila lagið hraðar og hraðara, þegar stjórnandunum þótti ferðin á þeim orðin nó, þá klappaði hann og um leið var hætt að spila og þá hófst kapphlaupið hjá strákunum hverjir yrðu fyrstir að ná í stelpurnar sem í hornunum voru,en þar sem strákarnir voru fimm þá varð alltaf einn eftir, sá bauð þá einhverri stelpu sem á bekknum sat upp. Á þessum böllum var aldrei verið með áfengi og allir fóru því jafngóðir heim af þeim sökum, kannski svolítið þreytt því það var verið að dansa allan tíman.Sjálfsagt gleymi ég einhverju sem forvitnilegt hefði verið að setja á blað.                              Ég held  þessi böll okkar hafi verið svo heilbrigður leikur sem það gat verið.                         Ég held því að holt væri fyrir unga fólkinu í dag að skemmta sér svona.                             Jæja frænka nú er ég hættur.  Þú hendir bara þessu bulli ef þú hefur ekki gaman af því.                          Skrifað í janúar og febrúar ár 2007.  Með bestu kveðju, þinn frændi.                                                              Gissur Jóhannesson  Herjólfsstöðum.                                                                                  Frænkan er Kristín Einarsdóttir.                                                                                                Þjóðfræðingur.                  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverð og skemtileg lesning.

Eggert Rútsson (IP-tala skráð) 31.5.2011 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gissur Þórður Jóhannesson

Höfundur

Gissur Þórður Jóhannesson
Gissur Þórður Jóhannesson
Ég er bara gamall karl sem hefur gaman af að fylgjast með og skifta mér af ýmsum málum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Lára, Gissur og Lilla, 14. febr. 2006 002
  • Hólmsárfoss
  • Hólmsárfoss 3

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband